Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
Það er staðreynd að markaðsöflin hafa jafnmikið að segja í listum og á öðrum sviðum. Við getum annað hvort hugsað sem svo að fyrst Jón Jónsson er til í að borga Kr. 300.000 fyrir þetta listaverk hlýtur það að vera merkilegt eða þá að listaverkið hlýtur að vera merkilegt fyrst að Jón Jónsson er til í að borga Kr. 300.000 fyrir það. Hvort sem við gerum gefur svona hugsunarháttur til kynna að mögulegt söluverð og gæði listaverks fara alltaf saman. Í mörgum löndum er það svo þannig að opinberir styrkir til gallería eru fáir sem engir þannig að galleríin verða að reiða sig á söluþóknun til að kosta starfsemina. En hvernig er hægt að selja stafræna list sem er í raun og veru ekkert annað en hugbúnaður á tölvu? Þegar menn kaupa hefðbundið málverk er gert ráð fyrir að málverkið verði til það sem eftir er mannkynssögunnar og jafnvel lengur nema að eitthvað sérstakt komi upp á. Þetta er langtímafjárfesting. Hins vegar má alveg gera ráð fyrir því að tölvur og tækni munu breytast það mikið í komandi framtíð að hugbúnaður sem við notum í dag verður ekki lengur nothæfur eftir tíu til tuttugu ár. Einhver getur sagt, "En ég byrjaði að nota Microsoft Word 1993 og nota það enn í dag." En Word pakkinn sem hann notar í dag er alls ekki sá sami og hann notaði 1993. Eigum við stafrænu listamennirnir kannski að selja listaverkin með samning upp á það að við munum sjá til þess að endurútfæra verkið ef tæknin breytist meðan við erum á lífi? Hvað verður þá um gömlu mýtuna um að listamaðurinn verður loksins heimsfrægur þegar hann deyr? Loksins kemur heimsfrægðin en þá hætta listaverkin að ganga. Minnir svolítið á málarann í Bluebeard eftir Kurt Vonnegut.
Verkin mín ganga út á það að vera stöðugt í gangi. Margir hafa stungið upp á ýmsum leiðum til að markaðssetja þau. Til að mynda mætti taka skjámyndir (screenshots), prenta þær í ofurháum gæðum, ramma þær inn og selja. "En þá tapast tímaþátturinn." Segi ég. "Þú gætir gert vídeómynd úr því sem er að gerast á skjánum og selt DVD diska." Segja þeir. "En þá tapast óendanleikinn." Segi ég. Það eina sem ég get boðið til sölu er kóðann. En hvað er að því? Ég get handskrifað hann á hágæða, sýrufrían pappír þannig að hann mun standast tímans tönn. Gerir það nokkuð til þó að sé búinn að "open-source"-a kóðann á Internetinu þannig að hver sem er gæti búið sitt eigið handskrifaða eintak til og sagt að ég hafi skrifað það? Ætti ég kannski frekar að fela kóðann minn til að auka á dulúð og einstakleika hans og gera hann þar með verðmætari?
Ég ætla að enda þessa færslu á að bjóða þér, lesandi góður, listaverk til sölu. Handskrifaðan kóða á sýrufríum pappír. Þessi kóði er birtur í heild á Internetinu þar sem hver sem er getur séð hann. Ef þú ert ekki forritari sjálfur, geturðu svo sem ekkert gert við þennan kóða nema kannski að ramma hann inn og hengja upp á vegg. Þetta verða ca. þrjú eða fjögur blöð. Svo vil ég ekki gefa nein loforð um að ég muni ekki búa til fleiri eintök til að selja öðrum ef vel gengur. En ég skal gefa þér nothæft eintak af verkinu líka. Ég get meira að segja komið heim til þín og sett það upp á heimilistölvunni þinni! Ég gæti þurft að þurrka allt út úr tölvunni þinni til að setja inn annað stýrikerfi. Og svo ætla ég ekki að lofa að það haldi áfram að virka þegar tölvan þín setur inn næstu sjálfvirku stýrikerfisuppfærslu. Eigum við að segja, tja... Kr. 150.000?
Menning og listir | 23.8.2007 | 10:45 (breytt kl. 10:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Stjörnuskoðun með hjálp Google | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | 22.8.2007 | 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Second Life er jú mjög áhugavert fyrirbæri sem hefur ekki farið framhjá stafræna listaheiminum. Það má vel vera að eitt af því fáu raunverulegu sem sést í Second Life, er list. Hópur fólks og félaga hafa starfrækt listamiðstöðina Ars Virtua um þó nokkurt skeið. Þar er meira að segja boðið upp á listavinnustofur (artist in residence) sem fylgja styrkur ( í Linden dollurum og stundum í US dollurum líka) og tækniaðstoð. Í Second Life er starfræktur mjög virkur gjörningahópur sem kallar sig Second Front. Nafnið er fengið frá The Western Front, Kanadísk listamiðstöð sem var mjög áberandi í performans listum og fór snemma að styðja raf- og stafrænar listir. Annar listamaður sem hefur getið sér gott orð í Second Life er Gazira Babeli. Það er samspil margra þátta sem gera Second Life að áhugaverðu umhverfi fyrir listamenn. Einn er forritunarmöguleikinn. Second Life er með eigið forritunarmál sem kallast LindenScript. Auk þess eru þrívíð teikningartól þar sem hægt er að búa til allt mögulegt. Hlutunum má síðan gefa virkni með því að festa forrit við þau. Í vetur vann ég að sýningu með Ingrid Bachmann, prófessor í myndlist við Concordia háskólann í Quebec í Kanada. Þetta var verk sem hún hafði unnið með öðrum nokkrum árum áður. Þá gekk verkið út á það að fylgjast með hreyfingum svokallaðs "hermit crab" (veit ekki hvað þeir kallast á íslensku en þetta eru krabbar sem fæðast skeljalausir og "flytja" svo inn í tómar skeljar sem þeir finna á ströndinni) og nota það til að stýra flakki um vefinn. Þegar Ingrid bað mig um að endurvinna verkið með henni, stakk ég upp á að nota Second Life í stað vefsins. Á endanum vorum við með 6 krabba sem stýrðu ferðum persóna (ens. avatars) í second life. Eitt sem varð svolítið áhugavert í útfærslunni var að forritunarmálið, LindenScript, bauð ekki upp á aðferð til að stjórna hreyfingu persóna heldur varð að búa til hlut, festa forritunina við hlutinn og þannig láta hlutinn hreyfa persónuna. Hluturinn sem við notuðum var að sjálfsögðu stór kuðungur sem persónur báru á bakinu. Yfir búrinu sem krabbarnir bjuggu í var myndavél sem fylgdist með hreyfingum þeirra. Myndin var send í gegn um forrit sem gaf upp hnit á hreyfingunum. Annað forrit las hnitin og skrifaði þau inn í skjal á vefnum. Forritunin í kuðungunum las svo úr þessu skjali á 10 sekúndna fresti. Ef hnit höfðu breyst frá síðustu lesningu þá var persónan flutt á samsvarandi hnit í Second Life heiminum. Verkið var sýnt á sýningunni ZOO í galleríinu Interaccess í Toronto í Kanada.
Viðbót: Það er svolítið gaman, og alls ekki flókið, að láta raunheiminn birtast í einhverri mynd í Second Life. Persónan mín, Pall Thielt, ber fjólublátt horn sem ég bjó til á höfði sér sem kannar veður í raunheimi eftir óskum. Til að fá nýjustu veður fréttir skrifar maður bara /weather Reykjavik sem dæmi. En það getur gefið veður upplýsingar um hvaða borg eða bæ sem er í heimi. Ef einhver hittir mig í SL skal ég gefa þeim eintak af horninu ef þeir óska eftir því. En það er kannski rétt að nefna að ég fer mjög sjaldan inn á SL
Viðbót2: Fyrir þá sem hafa áhuga á að prófa sig áfram með forritun í Second Life er líka rétt að benda á libsecondlife sem gerir manni kleift að forrita ýmsa þætti inni í Second Life sem LindenScript veitir ekki aðgang að. Forritun er í C#, töluvert flóknara en LindenScript og er notandinn þá ekki tengdur með sjónrænu viðmóti. En fyrir "hardcore" grúskara þá getur libsecondlife verið mjög skemmtilegt.
Annað líf í sýndarveruleika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | 19.8.2007 | 00:37 (breytt kl. 12:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Breytir CIA texta Wikipedia? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | 16.8.2007 | 21:31 (breytt kl. 23:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Um daginn hleypti ég af stokkunum nýtt kerfi sem ég hef verið að þróa. Sjáið síðustu færslu til að fræðast meira um það. Í hnotskurn þá er þetta kerfi til að spjalla um kóðann á bak við stafræn listaverk. Það hafa þegar myndast þó nokkrar umræður inni á kerfinu en ummæli eins manns slógu mig svolítið út af laginu í fyrstu en vörpuðu svo ljósi á nokkuð sem mér finnst vera áhugavert. Sá sem ritaði heitir G. H. Hovagimyan og er prófessor í tölvulistum við School of Visual Arts í New York. Ég kannaðist strax við nafnið er ég sá það þar sem hann er af og til virkur á ýmsum póstlistum þar sem fjallað er um tölvutengda list. Helstu punktarnir úr ummælum hans eru þessir (þýtt úr ensku):
"Samstarf verkfræðinga/tölvufræðinga og listamanna fer alltaf á sama veg. Verkfræðingurinn er alltaf að spá í hvernig á að framkvæma hlutina og listamaðurinn veit sjaldnast hvað það er sem hann vill gera. Það er ekki hægt að draga saman og smætta "listræna verknaðinn" (e. the art process) í kóða."
Í öðrum ummælum segir hann:
"Ég tel að listin hefur myndað sitt eigið tungumál. ... Bestu listamennirnir nota kóða og tölvur sem útgangspunkt út í rökræður um 21. öldina, fjölmiðlaheiminn, hverfandi miðstýringu upplýsingaflæðis og gjörbreyttan heim. Hvort sem þeir nota kóða, tölvur, kol eða mold, þá snýst þetta um umfangsmeiri heimsmynd. Verk þeirra tala til mannsins um mannlegt eðli. Listsköpun er mannlegur verknaður sem ekki er hægt að túlka í kóða."
Fyrst og fremst er G. H. að misskilja mína hlið á málinu. Það er að segja ef hann hefur þá haft fyrir því að kynna sér hana. Ég hef bent á að sú tíð þar sem listamenn þurftu að reiða sig á verkfræðinga og tölvufræðinga til þess eins að fá aðgang að tækninni er liðin. Tæknin er nú aðgengileg öllum. Einnig eru upplýsingar um forritunarmál orðin aðgengilegri sem og ýmis tól sem tengjast forritunarvinnslu. Þar af leiðandi er orðið mikið um að listamenn séu farnir að forrita sjálfir. Ég skil ekki af hverju hann hefur sín ummæli á þann hátt sem hann gerir. En það sem hann segir næst er hreinn og beinn misskilningur á því hvað telst til listaverka í þessum geira. Hann segir að við getum ekki búið til forrit sem kemur í stað listamannsins. Þessu er ég algjörlega sammála. En það sem listamenn eru að búa til eru ekki forrit sem búa til listaverk. Forritin eru sjálf listaverkin. Hann virðist vera að vísa óbeint í verkefni sem gengur undir nafninu AARON. AARON er hugbúnaður og vélbúnaður sem málar myndir. Að mínu mati hefur það lítið sem ekkert með myndlist að gera heldur gervigreind. Í næstu ummælum G. H. var hann að svara mér. Ég hafði mjög kurteisislega bent honum á rangfærslur og rangtúlkanir hans eins og ég hef gert hér í þessari færslu. Þar byrjar hann á að gefa til kynna að listin búi yfir fullþróuðu og endanlegu tungumáli. Hann orðar það svona á ensku, "I believe that art has developed it's own language." Það er ekki hægt að túlka þetta á annan veg en ég hef gert. Þetta er auðvitað algjör fjarstæða. Tungumál listarinnar þróast auðvitað með tímanum eins og allt annað og að mínu mati er kominn tími til að þetta tungumál fari að þróast þannig að það geti fjallað um hlutverk og afleiðingar kóða í forrituðum listum. Að skrifa kóða er jafn mannlegt og að draga pensil eftir striga. G. H. lætur það hljóma eins og tölvan skrifi kóðann sjálf án þess að manneskja komi þar nálægt. Þeir sem skapa svona listaverk eru ekki að reyna að túlka listræna verknaðinn í kóða. Með því að kóða eru þeir að framkvæma listrænan verknað. En ef listaverk "góðra listamanna" snúast ekki um það hvort þeir nota kóða, tölvur, kol eða mold, því erum við þá að notast við mismunandi aðferðir í listsköpun? Auðvitað er sköpunartæknin alltaf háð tímanum og það að nota kóða til að búa til list er í sjálfu sér heilmikil ádeila á nútímanum. Það er fátt sem við gerum í dag sem tengist ekki stafrænni tækni, og þar af leiðandi kóða, með einhverjum hætti. Við förum ekki út án þess að hafa gemsann með, við hlustum á tónlist í stafrænum tækjum, við horfum á stafrænt sjónvarp, stundum stafræn bankaviðskipti o.s.frv. Tilvera okkar í dag er meira eða minna kóðuð.
viðbót: Mér datt eitt í hug um daginn þegar ég var að hugsa um þessi mál. Það er oft talað um kóða sem "human readable" útgáfan af forriti. Þetta er ekki alskostar rétt. Réttara væri að segja að kóðinn sé "programmer readable." Því þó að "programmers" eru jú "human", þá eru ekki allir "humans" "programmers". Þetta skiptir ef til vill engu máli en mér fannst þetta áhugaverð pæling.
Menning og listir | 16.8.2007 | 18:24 (breytt kl. 19:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú hef ég ekki bloggað um þó nokkurt skeið. Ástæðan er að ég hef verið upptekinn við að ljúka vinnslu á sérstöku kerfi sem ég er að hanna. Það er mín skoðun að það þurfi að auka opna umræðu um hlutverk kóða í stafrænum listum til að fræða almenning sem og listaheiminn um mikilvægi kóðans bæði hvað varðar hugmyndafræði og útfærslu á forrituðum listaverkum. Kerfið mitt heitir CodeChat og er sérstaklega hannað þannig að forritarar geti, með einföldum hætti, búið til spjallþráða kerfi "utan um" forritunar kóða sína. Forritarinn keyrir kóðan sinn í gegn um forrit sem býr til vefsíðu þar sem hver forrituð lína hefur sérstakan spjallglugga. Hugmyndin er að forritarar geta skipst á skoðunum um kóðan. Þessar umræður eru í eðli sínu tæknilegar til að byrja með en geta svo leitt út í umræðu sem snýst meira um hugmyndafræðilegar og jafnvel fagurfræðilegar afleiðingar kóðans. Þá geta aðrir, sem ekki kunna forritun, tekið virkan þátt í umræðunum. Prufueintak af kerfinu er að finna á slóðinni
http://pallit.lhi.is/~palli/codechat/
Menning og listir | 12.8.2007 | 21:02 (breytt 21.8.2007 kl. 00:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugtakið miðill veldur stundum misskilningi, sérstaklega þegar kemur að listum. Augljóslega er miðill eitthvað sem miðlar einhverju. Útvarp er miðill sem miðlar upplýsingum í hljóðrænu formi. Dagblöð miðla upplýsingum í rituðu máli. Sjónvarp sameinar hljóð, mynd og texta í sinni miðlun. Hins vegar, þegar við tölum um miðla í listum er yfirleitt átt við það efni sem listamaðurinn notar í sinni listsköpun. Þannig að olíumálning er einn miðill, grafít annar og línóleum dúkur en einn. Svo mætti lengi telja. Þetta verður enn flóknara þegar nýlegri aðferðir til listsköpunar eru teknar inn í dæmið. Ef við höldum okkur við þá hugmynd að miðill er það sem skilar upplýsingum til fólks, eins og útvarp, dagblöð og sjónvarp gera, má alveg færa rök fyrir því að olíumálning, leir og tré virka alveg á sama hátt. Það er efnið sem listamaðurinn vinnur með á skapandi hátt þannig að það miðli hugmyndum listamannsins til áhorfenda. Hver er þá miðillinn í stafrænum listum sem birtast fólki á skjá? Er það skjárinn? Það er augljóslega skjárinn sem á endanum miðlar verkunum til fólks. En er alveg rétt að segja að listamaðurinn sé að meðhöndla skjáinn til að miðla hugmyndum sínum til fólks. Væri þá ekki réttara að segja að málarinn noti sýningarrýmið til að miðla sínum hugmyndum til fólks. Þannig að það er ekki lengur málningin og striginn sem er miðillinn, heldur rýmið sem málverkið er sýnt í. Þetta er auðvitað út í hött. Þegar málarinn hefur svo selt málverk, ræður hann svo sem engu um rýmið sem verkið er sýnt í, því tæpast hægt að binda okkur við framsetningu listaverks sem miðil í listrænum skilningi. Það eru auðvitað til undantekningar þar sem listamenn vinna innsetningar fyrir ákveðin rými en þar væri fullkomlega eðlilegt að telja rýmið til efnis miðils listamannsins.
Hver er þá miðill stafræna listmannsins? Hvað er það sem hann meðhöndlar beint til að koma hugmyndum sínum á framfæri? Það eru til margskonar stafræn listaverk en vegna þess að mín sérþekking tengist ákveðinni tegund, ætla ég að halda mig við það í þessari umfjöllun. Sú tegund er forrituð list. List þar sem listamaðurinn eða listamennirnir skrifa sín eigin forrit sem knýja svo listaverkið. Þegar forritari býr til forrit skrifar hann einskonar leiðbeiningar til tölvunar um það hvernig hún eigi að haga sér. Leiðbeiningarnar eru í textaformi og hægt er að skrifa þennan texta í einföldum textavinnsluforritum. Það eru til fjölmörg forritunarmál og alveg eftir þekkingu eða smekk hvers og eins hvaða mál hentar hverju sinni. Hér er dæmi um kóða:
#!/usr/bin/perl -w fork bomb
while (print not fork," ") {
XXX: while (print fork," \t") {
exit if int rand(1.1);
}
} goto 'XXX';
Þessi kóði er hluti af framlagi listamannsins Alex Galloway til sýningarinnar CODeDOC sem sýnd var á vef Whitney listasafnsins í Bandaríkjunum árið 2002. Það eina sem þetta "verk" gerir er að fjölfalda sér þar til tölvan sem keyrir það frýs undan álaginu. CODeDOC sýningin, sem skipulögð var af kúratórnum og listfræðingnum Christiane Paul var nokkuð sérstæð sýning á stafrænni list. Þar var kóðinn fyrir hvert verk gert hærra undir höfði heldur en tíðkast hefur. Til þess að skoða verkin þurfti fyrst að fletta í gegnum kóð hvers verks. Einnig var hægt að lesa ummæli hvers listamanns um kóða annarra sem tóku þátt í sýningunni. Það verður ljóst þegar þessi ummæli eru lesin að þessir listamenn ná að skilja verkin á annan og jafnvel dýpri hátt heldur en þeir sem skoða aðeins útkomuna. Það er spurning hvort ekki sé þörf á slíkri umræðu til að koma listunnendum í skilning um mikilvægi kóðans sem liggur á bak við svona verk.
Menning og listir | 4.8.2007 | 00:07 (breytt kl. 00:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég verð nú að nota tækifærið og koma mínu "widget"-i á framfæri. Fyrir næstum tveimur árum síðan bjó ég til Dashboard widget fyrir Apple fartölvur sem hafa innbyggða hreyfiskynjara. Í dag eru það allar Apple fartölvur sam hafa þennan búnað. Forritið gerir þér kleift að nota tölvuna sem hallamæli. Sumir hafa sagt að þetta geri tölvuna að dýrasta hallamæli sem hægt er að fá. Forritið er að finna á slóðinni:
http://pallit.lhi.is/~palli/dashlevel
Ég hef ekkert unnið í forritinu lengi en ef ég man rétt á útgáfan sem merkt er "This version is *only* for MacBook Pros." að virka á öllum gerðum Apple fartölva núna. Algjört þarfaþing!
Dashboard eining fyrir notendur mbl.is | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | 3.8.2007 | 15:31 (breytt kl. 15:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Færsluflokkar
Eldri færslur
Jan. 2025
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Tónlistarspilari
Tenglar
Áhugaverðir tenglar
Vefir sem tengjast stafrænni list
- ISEA - Inter-Society for the Electronic Arts ISEA ráðstefnurnar eru mikilvægir umræðuvettvangar fyrir tæknitengda list
- PixelAche Evrópskt félaganet um stafrænar listir
- Fondation Daniel Langlois Rannsóknarstofnun fyrir stafrænar listir
- Rhizome Umfjöllun og gagnagrunnur fyrir tæknitengda list