Kóðinn og 21. öldin

Um daginn hleypti ég af stokkunum nýtt kerfi sem ég hef verið að þróa. Sjáið síðustu færslu til að fræðast meira um það. Í hnotskurn þá er þetta kerfi til að spjalla um kóðann á bak við stafræn listaverk. Það hafa þegar myndast þó nokkrar umræður inni á kerfinu en ummæli eins manns slógu mig svolítið út af laginu í fyrstu en vörpuðu svo ljósi á nokkuð sem mér finnst vera áhugavert. Sá sem ritaði heitir G. H. Hovagimyan og er prófessor í tölvulistum við School of Visual Arts í New York. Ég kannaðist strax við nafnið er ég sá það þar sem hann er af og til virkur á ýmsum póstlistum þar sem fjallað er um tölvutengda list. Helstu punktarnir úr ummælum hans eru þessir (þýtt úr ensku):

"Samstarf verkfræðinga/tölvufræðinga og listamanna fer alltaf á sama veg. Verkfræðingurinn er alltaf að spá í hvernig á að framkvæma hlutina og listamaðurinn veit sjaldnast hvað það er sem hann vill gera. Það er ekki hægt að draga saman og smætta "listræna verknaðinn" (e. the art process) í kóða."

Í öðrum ummælum segir hann:

"Ég tel að listin hefur myndað sitt eigið tungumál. ... Bestu listamennirnir nota kóða og tölvur sem útgangspunkt út í rökræður um 21. öldina, fjölmiðlaheiminn, hverfandi miðstýringu upplýsingaflæðis og gjörbreyttan heim. Hvort sem þeir nota kóða, tölvur, kol eða mold, þá snýst þetta um umfangsmeiri heimsmynd. Verk þeirra tala til mannsins um mannlegt eðli. Listsköpun er mannlegur verknaður sem ekki er hægt að túlka í kóða."

Fyrst og fremst er G. H. að misskilja mína hlið á málinu. Það er að segja ef hann hefur þá haft fyrir því að kynna sér hana. Ég hef bent á að sú tíð þar sem listamenn þurftu að reiða sig á verkfræðinga og tölvufræðinga til þess eins að fá aðgang að tækninni er liðin. Tæknin er nú aðgengileg öllum. Einnig eru upplýsingar um forritunarmál orðin aðgengilegri sem og ýmis tól sem tengjast forritunarvinnslu. Þar af leiðandi er orðið mikið um að listamenn séu farnir að forrita sjálfir. Ég skil ekki af hverju hann hefur sín ummæli á þann hátt sem hann gerir. En það sem hann segir næst er hreinn og beinn misskilningur á því hvað telst til listaverka í þessum geira. Hann segir að við getum ekki búið til forrit sem kemur í stað listamannsins. Þessu er ég algjörlega sammála. En það sem listamenn eru að búa til eru ekki forrit sem búa til listaverk. Forritin eru sjálf listaverkin. Hann virðist vera að vísa óbeint í verkefni sem gengur undir nafninu AARON. AARON er hugbúnaður og vélbúnaður sem málar myndir. Að mínu mati hefur það lítið sem ekkert með myndlist að gera heldur gervigreind. Í næstu ummælum G. H. var hann að svara mér. Ég hafði mjög kurteisislega bent honum á rangfærslur og rangtúlkanir hans eins og ég hef gert hér í þessari færslu. Þar byrjar hann á að gefa til kynna að listin búi yfir fullþróuðu og endanlegu tungumáli. Hann orðar það svona á ensku, "I believe that art has developed it's own language." Það er ekki hægt að túlka þetta á annan veg en ég hef gert. Þetta er auðvitað algjör fjarstæða. Tungumál listarinnar þróast auðvitað með tímanum eins og allt annað og að mínu mati er kominn tími til að þetta tungumál fari að þróast þannig að það geti fjallað um hlutverk og afleiðingar kóða í forrituðum listum. Að skrifa kóða er jafn mannlegt og að draga pensil eftir striga. G. H. lætur það hljóma eins og tölvan skrifi kóðann sjálf án þess að manneskja komi þar nálægt. Þeir sem skapa svona listaverk eru ekki að reyna að túlka listræna verknaðinn í kóða. Með því að kóða eru þeir að framkvæma listrænan verknað. En ef listaverk "góðra listamanna" snúast ekki um það hvort þeir nota kóða, tölvur, kol eða mold, því erum við þá að notast við mismunandi aðferðir í listsköpun? Auðvitað er sköpunartæknin alltaf háð tímanum og það að nota kóða til að búa til list er í sjálfu sér heilmikil ádeila á nútímanum. Það er fátt sem við gerum í dag sem tengist ekki stafrænni tækni, og þar af leiðandi kóða, með einhverjum hætti. Við förum ekki út án þess að hafa gemsann með, við hlustum á tónlist í stafrænum tækjum, við horfum á stafrænt sjónvarp, stundum stafræn bankaviðskipti o.s.frv. Tilvera okkar í dag er meira eða minna kóðuð.

viðbót: Mér datt eitt í hug um daginn þegar ég var að hugsa um þessi mál. Það er oft talað um kóða sem "human readable" útgáfan af forriti. Þetta er ekki alskostar rétt. Réttara væri að segja að kóðinn sé "programmer readable." Því þó að "programmers" eru jú "human", þá eru ekki allir "humans" "programmers". Þetta skiptir ef til vill engu máli en mér fannst þetta áhugaverð pæling.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Páll Thayer
Páll Thayer
Páll Thayer er myndlistamaður. http://www.this.is/pallit

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Eitthvað annað

Prufa

Heimsóknir

Heimsóknir

free counters

Tónlistarspilari

Neu! - 01 - neu - hallo_gallo

Nýjustu myndir

  • ...il_2009_033
  • ...il_2009_018
  • ...irar_639144
  • ...virar
  • cnnpost

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband