Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Miðillinn sem blekkir miðlana

Kemur aðeins inn á efni þessa bloggs. Áhugavert að sjá þessa frétt á mbl í dag, sérstaklega vegna þess að það kom fram í gær að þessi frétt væri uppspuni sem dreyfðist hratt um þann óháða og jafnframt óheflaða miðil, Internetið. Það er þetta stjórnleysi og eftirlitsleysi sem gerir Internetið eins spennandi og það er í augum listamanna sem eru að fást við það. Þetta er mjög gott dæmi um telepistemology (sjá síðustu færslu).
mbl.is París Hilton gerð arflaus?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cybernetics og telematics

Breskur listamaður, Roy Ascott, fékk áhuga á gagnvirkri tölvulist á sjöunda áratugnum. Til að móta sínar hugmyndir og koma þeim á blað var tvennt sem hann studdist við. Annars vegar var það Cybernetics og hins vegar Telematics. Cybernetics er fræðigrein sem kom fram á hið almenna sjónarsvið þegar Norbert Wiener gaf út bókina Cybernetics, or Control and Communication in the Animal and Machine árið 1948. Mig minnir að ég hafi einhverntímann lesið að Wiener hafi fundið upp Cybernetics en það er ekki rétt. Hugtakið hefur verið til síðan á tímum Platons og fræðigreinina sjálfa má rekja aftur til átjándu aldar. Cybernetics skoðar kerfi, samskipti og "feedback." Það er gott að nota rafmagnsgítar sem dæmi til að útskýra þetta. Tökum rafmagnsgítar, leggjum hann í statíf við hliðina á magnaranum sem hann er tengdur við og höfum kveikt á hvoru tveggja. Sláum svo einu sinni á streng og hvað gerist þá? Tif strengsins gerir það að verkum að hljóðnemar í gítarnum senda rafbylgjur til magnarans sem framleiðir svo hljóð úr þeim. Hljóðiðbylgjurnar frá magnaranum koma svo stregjunum á gítarnum til að tifa áfram sem gerir það að verkum að gítarinn heldur áfram að senda hljóð til magnarans og magnarinn heldur áfram að senda frá sér hljóðbylgjur. Hringrásinn styrkir og jafnar sig þar til einn og sami tónninn heldur endalaust áfram. Slík kerfi finnast t.d. einnig í veðri. Hvirfilbyljir og fellibyljir stafa af hringrásamyndun í veðurkerfum. Þau finnast einnig í tölvukerfum. Segjum sem svo að ég ætla að búa til lítið samskiptakerfi sem gerir mér kleyft að spjalla við félaga mína á Internetinu. Kerfið á að taka textann sem ég slæ inn og birta svo á skjánum hjá félögunum. Ef ekki er rétt farið að, er hætt við að kerfið taki allan þann texta sem birtist á skjánum og birtir hann svo á skjánum. Þið sjáið e.t.v. í hvað stefnir. Ég slæ inn setninguna, "Hæ strákar!" og kerfið birtir það á skjánum, svo tekur kerfið það sem það sá um að birta á skjánum og birtir það aftur á skjánum o.s.frv. Auðvitað eru til auðveldar leiðir í kring um þetta í dag, en á vordögum tölvanna var þetta vandamál.

Telematics er samsett úr orðunum telecommunications og informatics. Þannig að Telematics fæst við upplýsingamiðlun um fjarskiptanet.  Áður en byrjað var að tala um NetArt eða list á Internetinu var talsvert talað um Telematic Art. Þetta er auðvitað aðeins víðara hugtak þar sem til eru fleiri fjarskiptanet heldur en bara Internetið. Árið 1980 settu listamennirnir Kit Galloway og Sherrie Rabinowitz upp verkið Hole in Space í New York og Los Angeles. Vegfarendur í þessum tveimur borgum, urðu einn daginn varir við fólk sem birtist í glugga, annars vegar í Lincoln Center for Performing Arts og hins vegar í Broadway stórmarkaðinum. Brátt rann upp fyrir fólki að New York búar voru að sjá Los Angeles búa og öfugt. Einnig voru hátalarar þar sem heyrðist í fólkinu hinum megin. Allt gerðist þetta í rauntíma. Þegar þetta spurðist út voru fjölskyldur sem skipulögðu fundi við fjarlæga ættingja sína. Áður en menn vissu af, var fjöldin við gluggana orðin svo stór að stöðva þurfti verkið til að koma í veg fyrir óeirðir.

Árið 1983 sýndi Roy Ascott verk sem hét La Plissure du Texte eða "Textafellingar".  Fyrir verkið hafði verið myndað tölvunet sem tendgi saman 14 staði í heiminum. Hugmyndin var að  allar stöðvarnar myndu í sameiningu semja ævintýraskáldsögu. Verkið gékk allan sólarhringinn í 12 daga. Hægt er að nálgast allan textan úr verkinu á vef Walker safnsins í Minneapolis, BNA. Ken Goldberg setti upp verk sitt Telegarden árið 1995. Verkið samanstóð af vefsíðu og fjarstýrðum blómagarði. Notendur gátu skráð sig inn á vefsíðuna og plantað svo eigin blómi í garðinn. Hver notandi þurfti að huga reglulega að sínu blómi til að halda því á lífi. Garðurinn sjálfur var lengst af til sýnis í húsakynnum Ars Electronica í Austurríki. Þar gat almenningur fylgst með því sem notendur vefsins voru að gera í garðinum. Einnig var hægt að fylgjast með garðinum í beinni útsendingu á Internetinu. Í skrifum sínum um garðinn og hugmyndir á bak við verkið, bjó Ken Goldberg til orðið Telepistemology. Þar hefur hann tekið hugtakið telematic og skeitt því hugtakið epistemology (Þekkingarfræði, hvernig vitum við það sem við vitum?) úr heimspekinni. Hugmyndin á bak við þetta hugtak var að velta því fyrir sér hvernig og hvort við getum myndað þekkingu sem byggist á upplýsingum sem berast um fjarskiptanet. Því Telegarden hefði hæglega getað verið ein stór blekking. Einfaldlega forrit sem líkti eftir vélrænum garði sem væri ekki til í raunveruleikanum. Hvernig getum við vitað að blómið sem við plöntuðum í gegn um vefviðmót er til einhverstaðar í Austuríki? Getum við það nokkuð? Árið 2004 vann netlistahópurinn MTAA verk sem kallast One Year Performance Video og er það endurgerð á verki eftir Tehching Hsieh sem heitir One Year Performance. Í verki Hsieh frá 1974, flutti hann inn í rými í galleríi og bjó þar í heilt ár. Almenningur gat svo heimsótt galleríið og fylgst með honum. Í endurgerð MTAA er myndband sem gengur á netinu og sýnir listamennina í litlum rýmum. Á bak við þetta er forritað kerfi sem gerir það að verkum að áhorfandanum finnst þetta vera að gerast í rauntíma. Kerfið safnar upplýsingum um þann tíma sem hver áhorfandi hefur eytt við verkið. Þegar áhorfandinn hefur horft í samtals eitt ár (það þarf ekki að vera samfellt áhorf heldur má það vera uppsafnað í mörgum, smáum skömmtum) fær hann að eiga eintak af verkinu í formi kvikmyndar sem hann getur hlaðið niður af vefsíðu MTAA. Það er nokkuð ljóst að ekki er hægt að lesa úr verki MTAA á sama hátt og lesið er úr upphaflega verkinu. Þó að þetta sé endurgerð er tilgangurinn og vinnslan allt önnur. Eins og Marshall McLuhan sagði, "The medium is the message." En hver er miðillinn? Sumir myndu segja að Internetið sé miðillinn. Það væri ef til vill hægt að færa rök fyrir því í verkinu One Year Performance Video en hvað með Telegarden? Þar var öllu miðlað um Internetið en einnig var hægt að ferðast til Austurríkis og sjá verkið miðlað með öðrum hætti. Síðast en ekki síst er vert að skoða hvað hugtakið "miðill" þýðir í listum. Nánar um þetta í næstu færslu.


9 Evenings: sögulegur viðburður (Stefnumótandi? Sjáum til.)

Stafrænar listir hafa verið til í þó nokkurn tíma. Rekja má ýmsar tilraunir listamanna með stafræna tækni aftur til sjöunda áratugarins. Eflaust myndu sumir vilja rekja þetta enn lengra aftur í tímann en það er ágætt að byrja þar vegna sýningar sem haldin var árið 1966. Sýningin kallaðist 9 Evenings og var skipulögð af sænska verkfræðingnum Billy Klüver og bandaríska myndlistamanninum Robert Rauschenberg. Hugmyndin á bak við þessa uppákomu var að koma listafólki og verkfræðingum saman og láta þá vinna að listaverkum í sameiningu. Það voru nokkrir vel þekktir listamenn með í sýningunni, auk Rauschenberg voru einnig tónlistamaðurinn John Cage og dansfrömuðurinn (og Íslandsvinurinn) Merce Cunningham. Glöggir lesendur munu eflaust sjá í þessari upptalningu ákveðin tengsl við hinn fræga Black Mountain College. Verkfræðingarnir sem tóku þátt voru valdir eftir listrænum áhuga en það átti eftir að koma í ljós að listrænn áhugi þýddi ekki endilega að menn höfðu áhuga né skilning á því sem þessir listamenn voru að fást við. Sagan segir að einn verkfræðinganna, sem hafði mikið dálæti á klassískri tónlist, fékk áfall þegar honum varð ljóst hvað John Cage hugðist gera við tækin og tólin sem hann var búinn að eyða mörgum vikum í að hanna og smíða. Eins og titillinn gefur til kynna, samanstóð sýningin af mörgum atriðum (performönsum) sem voru sýndir á 9 kvöldstundum. Það var mikið um bilanir og allt sem hugsast gat fór úrskeiðis. Þó létu sýnendur og skipuleggjendur það ekki á sig fá og um 10.000 manns sáu sýningarnar. Það hefur verið reynt að gera mikið úr áhrifum þessa samstarfs á tækniþróun í kjölfarið. T.d. var verk eftir Rauschenberg sem leiddi víst til þróunar fyrsta þráðlausa hljóðnemans. En hvað um það? Hvaða áhrif og merkingu hafði þessi viðburður fyrir listirnar? Þetta var ef til vill fyrsta skiptið sem stór hópur nútíma listamanna hafði greiðan aðgang að nýjustu tækni síns tíma. Eftir 9 Evenings, stofnuðu Klüver og Rauschenberg félag sem kallaðist E.A.T. eða Experiments in Art and Technology. Félagið gerði listamönnum kleift að vinna ásamt verkfræðingum og öðru tæknifólki að listaverkum í tæknilegu umhverfi. Hugmyndin var að veita listamönnum aðgang að nýjustu tækninni. Hins vegar og þó ég hafi engar fastar heimildir fyrir því, tel ég að þetta hafi aðeins veitt listamönnum aðgang að tæknifólkinu sem hafði aðgang að tækninni sjálfri. Ég tel að við séum að byrja að sjá í dag, þegar listamenn hafa greiðari aðgang að tækninni án milligönguaðila, hvað er mikill munur á þessu tvennu. Það eru ýmis vandamál sem geta komið upp þegar fólk á gjörólíkum sviðum reynir að vinna saman. Tæknimaðurinn skilur ekki hversvegna listamaðurinn þarf að hafa þetta svona og listamaðurinn skilur ekki hvers vegna tæknimaðurinn verður að gera hlutina svona. Auk þess getur hugtakaágreiningur leitt til misskilnings milli manna. Sumir vilja meina að þetta leiði til óvæntra útkoma sem hlýtur að vera jákvætt í listrænum skilningi. Ég er ekki sammála en ætla að fara nánar út í það síðar.

Höfundur

Páll Thayer
Páll Thayer
Páll Thayer er myndlistamaður. http://www.this.is/pallit

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Eitthvað annað

Prufa

Heimsóknir

Heimsóknir

free counters

Tónlistarspilari

Neu! - 01 - neu - hallo_gallo

Nýjustu myndir

  • ...il_2009_033
  • ...il_2009_018
  • ...irar_639144
  • ...virar
  • cnnpost

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband