Færsluflokkur: Menning og listir

Og hér er auglýsingin fyrir þá sem vilja smá nostalgíu...


mbl.is Kók-jólaauglýsingin spiluð frítt í anda jóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið einstaka í listum

Það er sorglegt þegar svonalagað á sér stað og sérstaklega þegar það virðist svo gjörsamlega tilgangslaust eins og í þessu tilfelli. Þó vekur þetta upp ýmsar spurningar varðandi myndlist og verðmæti. Af hverju skiptir þetta máli? Hvað er svona merkilegt við þetta málverk og hversvegna ber að varðveita það? Það má nefnilega færa rök fyrir því að þetta einstaka málverk sé eitt af hornsteinum mannkynssögunnar. Það er til marks um ákveðnar hugarfarsbreytingar sem áttu sér stað ekki aðeins í listum heldur almennt í samfélögum evrópu. Auk þess er það einstakt. Það er ekkert annað eintak til og það er ef til vill það verðmætasta við það. Það eru mörg önnur málverk sem túlka sama tímann á jafn áhrifaríkan hátt. Þau eru einnig einstök og verðmæt. En hvernig ætli þetta verði svo með stafrænu listaverkin í dag, eftir svona 100 ár? Þau byggjast fæst á einstöku eintaki. En þau segja margt um okkur og það tímabil sem við lifum á. Hvernig ætla söfnin að fara að því að varðveita þessi verk sem mörg hver eru ekki einu sinni til í efnislægu formi? Það er áhugavert að líta aðeins til baka á annað merkilegt listaverk sem varð fyrir skemmdum í fyrra. Þetta er eitt frægasta og merkilegasta listaverk okkar tíma. Það markaði algjöra kúvendingu á öllum hugmyndum um listræna sköpun. Þetta er auðvitað pissuskálin hans Duchamps. Ósköp venjuleg postúlínspissuskál sem hann snéri á hvolf og málaði "R. Mutt, 1917" á og laumaði svo upp á vegg á sýningu í New York. Í fyrra gerðist það að franskur listamaður, vopnaður hamri, réðst á skálina á Pompidou safninu í París og braut hana. En þetta var nefnilega ekki skálin sem Duchamp málaði á og hengdi á vegg árið 1917. Engin veit hvað varð um þá skál. Á sjöunda áratugnum var Duchamp fengin til að "búa til" 8 eftirlíkingar sem eru nú varðveittar á söfnum víðsvegar um heiminn. Það er auðvelt að sjá og skilja hversvegna okkur ber að varðveita einstök málverk eins og "La Pont d'Argentuil" og það verður eflaust gert við það og ef þetta er nokkuð hrein rifa þá er ólíklegt að það komi til með að sjást mikið. En ef ég man rétt þá ætlaði Pompidou safnið að reyna að láta gera við pissuskálina sem varð fyrir skemmdum. Þá verður maður að spyrja sig, "Hvað er verið að varðveita?" Þar sem þetta er ekki upphaflega skálin, og hún er ekki einu sinni einstök sem eftirlíking, skiptir skálin sjálf einhverju máli? Kannski ekki. Er það ekki hugmyndin á bak við pissuskálina sem skiptir mestu máli? Jú, en ekki alveg. Það er bæði hugmyndin og hvernig hún var sett fram. En þá spyr ég aftur, hvernig ætli þetta verði eftir 100 ár með stafrænu listverkin sem er verið að búa til í dag? Þó að það sé ekki verið að ræða þetta mikið úti í samfélaginu og (því miður) en minna hér á Íslandi, þá er þetta mál sem stóru erlendu söfnin, eins og Guggenheim í NY og Tate Modern í London, eru að velta fyrir sér. Hvernig sem menn taka svo á þessu er alveg klárt að það ber að varðveita þessi verk á sama hátt og einstöku málverk Monet og "næstum" einstöku pissuskálar Duchamps.
mbl.is Skemmdir unnar á ómetanlegu verki eftir Monet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ekki tölvumóðurborð...

...og ekki þarf mikla þjálfun til að sjá það. Þetta er það sem kallast á ensku, "breadboard" og er notað til að gera uppköst eða prótótýpur af raftækjum ýmiskonar. Það væri jú hægt að gera úr þessu litla tölvu en þá væru einhverjir kubbar þarna. Mér sýnist þetta ekki vera annað en vírar, "resistórar" og ljósdíóður. Hins vegar tel ég mjög líklegt að stelpan vissi alveg hvað hún var að gera. Í fréttum sem ég sá fyrr í dag kom fram að hún er á öðru ári í MIT og hefur því verið í Boston í fyrra vetur þegar mikið var gert úr sérstæðri auglýsingaherferð sem fólst í því að koma "brauðbrettum" með ljósdíóðum sem mynduðu fígúrur í væntanlegri teiknimynd fyrir á ýmsum stöðum í borginni. Margir borgarbúar urðu skelkaðir og töldu að um einhverskonar hryðjuverkatól væru að ræða. Ég hugsa að stúlkan hafi verið að reyna að vekja á sér athygli sem listakona. Það má svo sem segja að þetta hafi heppnast hjá henni þar sem nafn hennar hefur birst í mörgum af helstu fréttamiðlum heims í dag en svo er bara spurning hvort nokkrum hafi fundist þetta "sniðugt". Logan er nú einu sinni flugstöðin þar sem flugvélunum sem flogið var á tvíburaturnana var rænt og því má ætla að öryggisverðir hafi ekki húmor fyrir svona uppátækjum. Hún hefur að minnsta kosti fengið sínar 5 mínútur að hætti Andy Warhols.
mbl.is Sprengjueftirlíkingin reyndist tæknilistaverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálftinn í vesturbæ Reykjavíkur

Það vill svo til að ég er um þessar mundir að vinna verk sem notar rauntíma skjálftaupplýsingar. Eins og er er ég með verkið sett upp þannig að það les upplýsingar frá skjálftamæli sem er staðsettur í Papua Nýju Guineu í Indonesíu. Listaverkið sækjir myndir af Flickr.com vefnum og endurteiknar þær þannig að skjálftupplýsingarnar stjórna línuþykktinni hverju sinni. Við venjulegar kringumstæður verður upphaflega myndefnið svolítið óljóst en þó má oftast greina eitthvað. Þar sem ég sat við tölvuna í morgun og var að fylgjast með gangi verksins, um kl. 11:15 fór verkið skyndilega að hafa sér allt öðruvísi en venjulega. Línuþykktin varð svo mikil að hún þakkti allan flötin sem verkið teiknar inn á. Það má sjá myndir af þessu her http://www.flickr.com/photos/34767692@N00/1366370204/  og hægt er að fylgjast með verkinu sjálfu í rauntíma hér http://pallit.lhi.is/~palli/nude_studies  Það virðast enn vera eftirskjálftar að ríða yfir þannig að verkið er enn sem er mjög afstrakt.
mbl.is Íslendingar urðu varir við skjálftann í Singapúr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FREE BEER!

SUPERFLEX er hópur danskra listamanna sem tekur um þessar mundir þátt í sýningunni Social Systems sem fer fram í Tate St. Ives safninu og víðar í Cornwall á Bretlandi. Verkið sem SUPERFLEX sýnir ber nafnið FREEBEER. Titillinn er bein tilvísun í slagorð opins hugbúnaðar, "Free as in speech, not as in beer." Þetta slagorð varð til til að greina á milli hugbúnaðar sem er ókeypis (ens. free) og hugbúnaðar sem er frjáls (ens. free). Opinn hugbúnaður er jú ókeypis en það að hann skuli vera frjáls skiptir meira máli. FREEBEER er opin uppskrift að bjór. Uppskriftin og aðferðin er birt með leyfi sem heimilar hverjum sem er að afrita hana, dreyfa henni, breyta og nota hana eins og þeim sýnist. Það er tvennt áhugavert sem þessi yfirfærsla á hugbúnaðarkonsepti yfir á annað fyrirbæri gerir. Annars vegar varpar þetta skýrara ljósi á hugbúnaðarkonseptið sjálft. Þeir sem þekkja ekki "open-source" fyrirbærið fyrir, eiga sennilega auðveldara með að skilja það í þessu samhengi, þ.e.a.s. sem uppskrift. Forritunarkóði er í rauninni ekkert annað en "uppskrift". Á hinn bóginn myndar svona listaverk einskonar brú á milli forritaðra listaverka og "leiðbeiningar-verk" konsept listamanna á sjötta áratugnum. Þá á ég við listamenn á borð við Lawrence Weiner og Sol Lewitt. Lawrence Weiner er þekktur meðal annars fyrir línuna, "The work need not be built." Fyrir Weiner var konseptið aðal þátturinn í listaverki. Allt annað var óþörf skreyting. Þessi hugsanagangur gerði honum kleift að þróa list sína úr því að vera efniskennd útfærsla á skrifuðum leiðbeiningum í það að sleppa efniskenndu útfærslunni og leyfa leiðbeiningunum að standa sem fullklárað verk. Það er því ljóst að forrituð stafræn list er beinn afkomandi konseptlistarinnar. En þar sem mannshugurinn túlkaði leiðbeiningar konseptlistamannanna er það tölvan sem túlkar leiðbeiningar forritarans og mannshugurinn sem túlkar svo túlkun tölvunnar.

Viltu kaupa listaverk?

Það er staðreynd að markaðsöflin hafa jafnmikið að segja í listum og á öðrum sviðum. Við getum annað hvort hugsað sem svo að fyrst Jón Jónsson er til í að borga Kr. 300.000 fyrir þetta listaverk hlýtur það að vera merkilegt eða þá að listaverkið hlýtur að vera merkilegt fyrst að Jón Jónsson er til í að borga Kr. 300.000 fyrir það. Hvort sem við gerum gefur svona hugsunarháttur til kynna að mögulegt söluverð og gæði listaverks fara alltaf saman. Í mörgum löndum er það svo þannig að opinberir styrkir til gallería eru fáir sem engir þannig að galleríin verða að reiða sig á söluþóknun til að kosta starfsemina. En hvernig er hægt að selja stafræna list sem er í raun og veru ekkert annað en hugbúnaður á tölvu? Þegar menn kaupa hefðbundið málverk er gert ráð fyrir að málverkið verði til það sem eftir er mannkynssögunnar og jafnvel lengur nema að eitthvað sérstakt komi upp á. Þetta er langtímafjárfesting. Hins vegar má alveg gera ráð fyrir því að tölvur og tækni munu breytast það mikið í komandi framtíð að hugbúnaður sem við notum í dag verður ekki lengur nothæfur eftir tíu til tuttugu ár. Einhver getur sagt, "En ég byrjaði að nota Microsoft Word 1993 og nota það enn í dag." En Word pakkinn sem hann notar í dag er alls ekki sá sami og hann notaði 1993. Eigum við stafrænu listamennirnir kannski að selja listaverkin með samning upp á það að við munum sjá til þess að endurútfæra verkið ef tæknin breytist meðan við erum á lífi? Hvað verður þá um gömlu mýtuna um að listamaðurinn verður loksins heimsfrægur þegar hann deyr? Loksins kemur heimsfrægðin en þá hætta listaverkin að ganga. Minnir svolítið á málarann í Bluebeard eftir Kurt Vonnegut.

Verkin mín ganga út á það að vera stöðugt í gangi. Margir hafa stungið upp á ýmsum leiðum til að markaðssetja þau. Til að mynda mætti taka skjámyndir (screenshots), prenta þær í ofurháum gæðum, ramma þær inn og selja. "En þá tapast tímaþátturinn." Segi ég. "Þú gætir gert vídeómynd úr því sem er að gerast á skjánum og selt DVD diska." Segja þeir. "En þá tapast óendanleikinn." Segi ég. Það eina sem ég get boðið til sölu er kóðann. En hvað er að því? Ég get handskrifað hann á hágæða, sýrufrían pappír þannig að hann mun standast tímans tönn. Gerir það nokkuð til þó að sé búinn að "open-source"-a kóðann á Internetinu þannig að hver sem er gæti búið sitt eigið handskrifaða eintak til og sagt að ég hafi skrifað það? Ætti ég kannski frekar að fela kóðann minn til að auka á dulúð og einstakleika hans og gera hann þar með verðmætari?

Ég ætla að enda þessa færslu á að bjóða þér, lesandi góður, listaverk til sölu. Handskrifaðan kóða á sýrufríum pappír. Þessi kóði er birtur í heild á Internetinu þar sem hver sem er getur séð hann. Ef þú ert ekki forritari sjálfur, geturðu svo sem ekkert gert við þennan kóða nema kannski að ramma hann inn og hengja upp á vegg. Þetta verða ca. þrjú eða fjögur blöð. Svo vil ég ekki gefa nein loforð um að ég muni ekki búa til fleiri eintök til að selja öðrum ef vel gengur. En ég skal gefa þér nothæft eintak af verkinu líka. Ég get meira að segja komið heim til þín og sett það upp á heimilistölvunni þinni! Ég gæti þurft að þurrka allt út úr tölvunni þinni til að setja inn annað stýrikerfi. Og svo ætla ég ekki að lofa að það haldi áfram að virka þegar tölvan þín setur inn næstu sjálfvirku stýrikerfisuppfærslu. Eigum við að segja, tja... Kr. 150.000? 


Super-Googer: Risastórar gervihnattamyndir frá Google Maps

Fyrir nokkrum árum lét ég það fara í taugarnar á mér að það væri ekki hægt að sjá stærra svæði á Google Maps og datt þá í hug hvort ekki væri hægt að græja eitthvað kerfi sem leyfði manni að velja stærð svæðisins sem maður sæi. Eftir miklar rannsóknir og ítarlegt niðurrifsstarf á eiginleikum Google Maps varð til "Super Googer"! Google Maps notar mynd-flísar til að byggja upp sína "heimsmynd" og það reyndist afar flókið að læra á kerfið sem lá að baki flísaskipulaginu. Ég ætla ekkert að reyna að útskýra það hér, ef menn vilja sjá það er hægt að skoða kóðann á bak við "Super Googer" hér.
mbl.is Stjörnuskoðun með hjálp Google
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

List í sýndarheimi, er hún sýndarlist? Óraunveruleg tilraun til að líkja eftir raunverulegri list?

Second Life er jú mjög áhugavert fyrirbæri sem hefur ekki farið framhjá stafræna listaheiminum. Það má vel vera að eitt af því fáu raunverulegu sem sést í Second Life, er list. Hópur fólks og félaga hafa starfrækt listamiðstöðina Ars Virtua um þó nokkurt skeið. Þar er meira að segja boðið upp á listavinnustofur (artist in residence) sem fylgja styrkur ( í Linden dollurum og stundum í US dollurum líka) og tækniaðstoð. Í Second Life er starfræktur mjög virkur gjörningahópur sem kallar sig Second Front. Nafnið er fengið frá The Western Front, Kanadísk listamiðstöð sem var mjög áberandi í performans listum og fór snemma að styðja raf- og stafrænar listir. Annar listamaður sem hefur getið sér gott orð í Second Life er Gazira Babeli. Það er samspil margra þátta sem gera Second Life að áhugaverðu umhverfi fyrir listamenn. Einn er forritunarmöguleikinn. Second Life er með eigið forritunarmál sem kallast LindenScript. Auk þess eru þrívíð teikningartól þar sem hægt er að búa til allt mögulegt. Hlutunum má síðan gefa virkni með því að festa forrit við þau. Í vetur vann ég að sýningu með Ingrid Bachmann, prófessor í myndlist við Concordia háskólann í Quebec í Kanada. Þetta var verk sem hún hafði unnið með öðrum nokkrum árum áður. Þá gekk verkið út á það að fylgjast með hreyfingum svokallaðs "hermit crab" (veit ekki hvað þeir kallast á íslensku en þetta eru krabbar sem fæðast skeljalausir og "flytja" svo inn í tómar skeljar sem þeir finna á ströndinni) og nota það til að stýra flakki um vefinn. Þegar Ingrid bað mig um að endurvinna verkið með henni, stakk ég upp á að nota Second Life í stað vefsins. Á endanum vorum við með 6 krabba sem stýrðu ferðum persóna (ens. avatars) í second life. Eitt sem varð svolítið áhugavert í útfærslunni var að forritunarmálið, LindenScript, bauð ekki upp á aðferð til að stjórna hreyfingu persóna heldur varð að búa til hlut, festa forritunina við hlutinn og þannig láta hlutinn hreyfa persónuna. Hluturinn sem við notuðum var að sjálfsögðu stór kuðungur sem persónur báru á bakinu. Yfir búrinu sem krabbarnir bjuggu í var myndavél sem fylgdist með hreyfingum þeirra. Myndin var send í gegn um forrit sem gaf upp hnit á hreyfingunum. Annað forrit las hnitin og skrifaði þau inn í skjal á vefnum. Forritunin í kuðungunum las svo úr þessu skjali á 10 sekúndna fresti. Ef hnit höfðu breyst frá síðustu lesningu þá var persónan flutt á samsvarandi hnit í Second Life heiminum. Verkið var sýnt á sýningunni ZOO í galleríinu Interaccess í Toronto í Kanada.

Viðbót:  Það er svolítið gaman, og alls ekki flókið, að láta raunheiminn birtast í einhverri mynd í Second Life. Persónan mín, Pall Thielt, ber fjólublátt horn sem ég bjó til á höfði sér sem kannar veður í raunheimi eftir óskum. Til að fá nýjustu veður fréttir skrifar maður bara /weather Reykjavik sem dæmi. En það getur gefið veður upplýsingar um hvaða borg eða bæ sem er í heimi. Ef einhver hittir mig í SL skal ég gefa þeim eintak af horninu ef þeir óska eftir því. En það er kannski rétt að nefna að ég fer mjög sjaldan inn á SL

Viðbót2: Fyrir þá sem hafa áhuga á að prófa sig áfram með forritun í Second Life er líka rétt að benda á libsecondlife sem gerir manni kleift að forrita ýmsa þætti inni í Second Life sem LindenScript veitir ekki aðgang að. Forritun er í C#, töluvert flóknara en LindenScript og er notandinn þá ekki tengdur með sjónrænu viðmóti. En fyrir "hardcore" grúskara þá getur libsecondlife verið mjög skemmtilegt.


mbl.is Annað líf í sýndarveruleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wikipedia sem (áreiðanleg?) heimild [sjáið færslu mína um telepistemology]

Mikið hefur verið um það í Norður Ameríku undanfarið að skólar á öllum stigum hafa þurft að brýna fyrir nemendum að Wikipedia sé ekki áreiðanleg heimild og að upplýsingar þaðan ættu ekki að vera notaðar í heimildarritgerðum án þess að staðfesta þær með öðrum heimildum. Fólk verður að gera sér grein fyrir því að auðvelt er fyrir hvern sem er að hafa áhrif á upplýsingar sem þar er að finna. Ég man eftir að hafa lesið einhversstaðar nýlega um tilraunir Microsoft manna til að kaupa starfskraft fyrir að "lagfæra" nokkrar Wikipedia færslur. Sel það samt ekki dýrara en ég keypti það. Þetta var bara eitthvað sem ég rakst á á netinu, þú skilur. Á netinu er hægt að finna heimildir sem staðfesta hvaða skoðun sem er á hvaða máli sem er. Þið vitið t.d. að Bandaríkjamenn fóru aldrei til tunglsins. Þetta var allt sviðsett og meira að segja hef ég heimildir fyrir því að Stanley Kubrick hafi verið fenginn til að stýra sviðsetningunni. Einu sinni var ég svo heppinn að fá að hitta yfirmann rannsóknardeildar NASA á ráðstefnu í Kaupmannahöfn. Ég spurði hana út í þetta og hún sagði þetta alveg fráleitt. En mér sýndist hún verða svolítið taugaóstyrk þegar ég bar málið upp. Hmmm....
mbl.is Breytir CIA texta Wikipedia?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kóðinn og 21. öldin

Um daginn hleypti ég af stokkunum nýtt kerfi sem ég hef verið að þróa. Sjáið síðustu færslu til að fræðast meira um það. Í hnotskurn þá er þetta kerfi til að spjalla um kóðann á bak við stafræn listaverk. Það hafa þegar myndast þó nokkrar umræður inni á kerfinu en ummæli eins manns slógu mig svolítið út af laginu í fyrstu en vörpuðu svo ljósi á nokkuð sem mér finnst vera áhugavert. Sá sem ritaði heitir G. H. Hovagimyan og er prófessor í tölvulistum við School of Visual Arts í New York. Ég kannaðist strax við nafnið er ég sá það þar sem hann er af og til virkur á ýmsum póstlistum þar sem fjallað er um tölvutengda list. Helstu punktarnir úr ummælum hans eru þessir (þýtt úr ensku):

"Samstarf verkfræðinga/tölvufræðinga og listamanna fer alltaf á sama veg. Verkfræðingurinn er alltaf að spá í hvernig á að framkvæma hlutina og listamaðurinn veit sjaldnast hvað það er sem hann vill gera. Það er ekki hægt að draga saman og smætta "listræna verknaðinn" (e. the art process) í kóða."

Í öðrum ummælum segir hann:

"Ég tel að listin hefur myndað sitt eigið tungumál. ... Bestu listamennirnir nota kóða og tölvur sem útgangspunkt út í rökræður um 21. öldina, fjölmiðlaheiminn, hverfandi miðstýringu upplýsingaflæðis og gjörbreyttan heim. Hvort sem þeir nota kóða, tölvur, kol eða mold, þá snýst þetta um umfangsmeiri heimsmynd. Verk þeirra tala til mannsins um mannlegt eðli. Listsköpun er mannlegur verknaður sem ekki er hægt að túlka í kóða."

Fyrst og fremst er G. H. að misskilja mína hlið á málinu. Það er að segja ef hann hefur þá haft fyrir því að kynna sér hana. Ég hef bent á að sú tíð þar sem listamenn þurftu að reiða sig á verkfræðinga og tölvufræðinga til þess eins að fá aðgang að tækninni er liðin. Tæknin er nú aðgengileg öllum. Einnig eru upplýsingar um forritunarmál orðin aðgengilegri sem og ýmis tól sem tengjast forritunarvinnslu. Þar af leiðandi er orðið mikið um að listamenn séu farnir að forrita sjálfir. Ég skil ekki af hverju hann hefur sín ummæli á þann hátt sem hann gerir. En það sem hann segir næst er hreinn og beinn misskilningur á því hvað telst til listaverka í þessum geira. Hann segir að við getum ekki búið til forrit sem kemur í stað listamannsins. Þessu er ég algjörlega sammála. En það sem listamenn eru að búa til eru ekki forrit sem búa til listaverk. Forritin eru sjálf listaverkin. Hann virðist vera að vísa óbeint í verkefni sem gengur undir nafninu AARON. AARON er hugbúnaður og vélbúnaður sem málar myndir. Að mínu mati hefur það lítið sem ekkert með myndlist að gera heldur gervigreind. Í næstu ummælum G. H. var hann að svara mér. Ég hafði mjög kurteisislega bent honum á rangfærslur og rangtúlkanir hans eins og ég hef gert hér í þessari færslu. Þar byrjar hann á að gefa til kynna að listin búi yfir fullþróuðu og endanlegu tungumáli. Hann orðar það svona á ensku, "I believe that art has developed it's own language." Það er ekki hægt að túlka þetta á annan veg en ég hef gert. Þetta er auðvitað algjör fjarstæða. Tungumál listarinnar þróast auðvitað með tímanum eins og allt annað og að mínu mati er kominn tími til að þetta tungumál fari að þróast þannig að það geti fjallað um hlutverk og afleiðingar kóða í forrituðum listum. Að skrifa kóða er jafn mannlegt og að draga pensil eftir striga. G. H. lætur það hljóma eins og tölvan skrifi kóðann sjálf án þess að manneskja komi þar nálægt. Þeir sem skapa svona listaverk eru ekki að reyna að túlka listræna verknaðinn í kóða. Með því að kóða eru þeir að framkvæma listrænan verknað. En ef listaverk "góðra listamanna" snúast ekki um það hvort þeir nota kóða, tölvur, kol eða mold, því erum við þá að notast við mismunandi aðferðir í listsköpun? Auðvitað er sköpunartæknin alltaf háð tímanum og það að nota kóða til að búa til list er í sjálfu sér heilmikil ádeila á nútímanum. Það er fátt sem við gerum í dag sem tengist ekki stafrænni tækni, og þar af leiðandi kóða, með einhverjum hætti. Við förum ekki út án þess að hafa gemsann með, við hlustum á tónlist í stafrænum tækjum, við horfum á stafrænt sjónvarp, stundum stafræn bankaviðskipti o.s.frv. Tilvera okkar í dag er meira eða minna kóðuð.

viðbót: Mér datt eitt í hug um daginn þegar ég var að hugsa um þessi mál. Það er oft talað um kóða sem "human readable" útgáfan af forriti. Þetta er ekki alskostar rétt. Réttara væri að segja að kóðinn sé "programmer readable." Því þó að "programmers" eru jú "human", þá eru ekki allir "humans" "programmers". Þetta skiptir ef til vill engu máli en mér fannst þetta áhugaverð pæling.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Páll Thayer
Páll Thayer
Páll Thayer er myndlistamaður. http://www.this.is/pallit

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Eitthvað annað

Prufa

Heimsóknir

Heimsóknir

free counters

Tónlistarspilari

Neu! - 01 - neu - hallo_gallo

Nýjustu myndir

  • ...il_2009_033
  • ...il_2009_018
  • ...irar_639144
  • ...virar
  • cnnpost

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband