Stafrænar listir hafa verið til í þó nokkurn tíma. Rekja má ýmsar tilraunir listamanna með stafræna tækni aftur til sjöunda áratugarins. Eflaust myndu sumir vilja rekja þetta enn lengra aftur í tímann en það er ágætt að byrja þar vegna sýningar sem haldin var árið 1966. Sýningin kallaðist 9 Evenings og var skipulögð af sænska verkfræðingnum Billy Klüver og bandaríska myndlistamanninum Robert Rauschenberg. Hugmyndin á bak við þessa uppákomu var að koma listafólki og verkfræðingum saman og láta þá vinna að listaverkum í sameiningu. Það voru nokkrir vel þekktir listamenn með í sýningunni, auk Rauschenberg voru einnig tónlistamaðurinn John Cage og dansfrömuðurinn (og Íslandsvinurinn) Merce Cunningham. Glöggir lesendur munu eflaust sjá í þessari upptalningu ákveðin tengsl við hinn fræga Black Mountain College. Verkfræðingarnir sem tóku þátt voru valdir eftir listrænum áhuga en það átti eftir að koma í ljós að listrænn áhugi þýddi ekki endilega að menn höfðu áhuga né skilning á því sem þessir listamenn voru að fást við. Sagan segir að einn verkfræðinganna, sem hafði mikið dálæti á klassískri tónlist, fékk áfall þegar honum varð ljóst hvað John Cage hugðist gera við tækin og tólin sem hann var búinn að eyða mörgum vikum í að hanna og smíða. Eins og titillinn gefur til kynna, samanstóð sýningin af mörgum atriðum (performönsum) sem voru sýndir á 9 kvöldstundum. Það var mikið um bilanir og allt sem hugsast gat fór úrskeiðis. Þó létu sýnendur og skipuleggjendur það ekki á sig fá og um 10.000 manns sáu sýningarnar. Það hefur verið reynt að gera mikið úr áhrifum þessa samstarfs á tækniþróun í kjölfarið. T.d. var verk eftir Rauschenberg sem leiddi víst til þróunar fyrsta þráðlausa hljóðnemans. En hvað um það? Hvaða áhrif og merkingu hafði þessi viðburður fyrir listirnar? Þetta var ef til vill fyrsta skiptið sem stór hópur nútíma listamanna hafði greiðan aðgang að nýjustu tækni síns tíma. Eftir 9 Evenings, stofnuðu Klüver og Rauschenberg félag sem kallaðist E.A.T. eða Experiments in Art and Technology. Félagið gerði listamönnum kleift að vinna ásamt verkfræðingum og öðru tæknifólki að listaverkum í tæknilegu umhverfi. Hugmyndin var að veita listamönnum aðgang að nýjustu tækninni. Hins vegar og þó ég hafi engar fastar heimildir fyrir því, tel ég að þetta hafi aðeins veitt listamönnum aðgang að tæknifólkinu sem hafði aðgang að tækninni sjálfri. Ég tel að við séum að byrja að sjá í dag, þegar listamenn hafa greiðari aðgang að tækninni án milligönguaðila, hvað er mikill munur á þessu tvennu. Það eru ýmis vandamál sem geta komið upp þegar fólk á gjörólíkum sviðum reynir að vinna saman. Tæknimaðurinn skilur ekki hversvegna listamaðurinn þarf að hafa þetta svona og listamaðurinn skilur ekki hvers vegna tæknimaðurinn verður að gera hlutina svona. Auk þess getur hugtakaágreiningur leitt til misskilnings milli manna. Sumir vilja meina að þetta leiði til óvæntra útkoma sem hlýtur að vera jákvætt í listrænum skilningi. Ég er ekki sammála en ætla að fara nánar út í það síðar.
Flokkur: Menning og listir | 26.7.2007 | 00:03 (breytt 29.7.2007 kl. 02:22) | Facebook
Færsluflokkar
Eldri færslur
Nóv. 2024
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Tónlistarspilari
Tenglar
Áhugaverðir tenglar
Vefir sem tengjast stafrænni list
- ISEA - Inter-Society for the Electronic Arts ISEA ráðstefnurnar eru mikilvægir umræðuvettvangar fyrir tæknitengda list
- PixelAche Evrópskt félaganet um stafrænar listir
- Fondation Daniel Langlois Rannsóknarstofnun fyrir stafrænar listir
- Rhizome Umfjöllun og gagnagrunnur fyrir tæknitengda list
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.